Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Löggæslu- og ­lögreglufræði
Föstudagur 25. febrúar 2022 kl. 08:02

Löggæslu- og ­lögreglufræði

Lögreglustarfið getur oft á tíðum verið mjög krefjandi starf en það er hins vegar einnig mjög gefandi og fjölbreytt. Enginn dagur er eins. Eftir að ég byrjaði að starfa í lögreglunni fann ég það fljótt hvað starfið heillaði mig og átti vel við mig. Mér þótti starfsumhverfið skemmtilegt, verkefnin spennandi og mig langaði að læra meira. Ég ákvað því að sækja um lögreglunámið og komst inn. Við tók skemmtilegur tími þar sem ég lærði heilan helling og eignaðist einnig fullt af vinum. Námið hentaði mér vel þar sem því er skipt upp þannig að bóklegi hlutinn er kenndur við Háskólann á Akureyri og er hægt að taka þann hluta í fjarnámi. Verklegi hlutinn er síðan kenndur í reglulegum lotum sem maður sækir í Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) í Reykjavík.

Eftir útskrift er hægt að sækja fjölbreytt námskeið í MSL sem hjálpa manni að öðlast nýja og dýpri þekkingu á ýmsum viðfangsefnum sem og að viðhalda fyrri þekkingu. Lögreglustarfið er hins vegar þannig að maður hættir aldrei að læra. Hver dagur er lærdómsríkur að einhverju leyti og fjölbreytt verkefni hjálpa manni að þróa sig áfram í starfi og verða betri lögreglumaður fyrir vikið. Það er nauðsynlegt að vera vel í stakk búinn til að geta tekist á við flókin og viðkvæm mál og brugðist rétt við nýjum áskorunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í dag starfa ég sem varðstjóri hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og tel mig hafa fundið mína hillu. Starfsumhverfi okkar er fjölbreytt en við sjáum um almenna löggæslu á svæðinu, þ.e. í nærliggjandi bæjarfélögum og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem við sinnum einnig löggæslu á landamærum. Einnig erum við með rannsóknardeild sem sér um rannsókn á viðameiri og flóknari málum. Við leggjum mikla áherslu á að fara inn í hvern dag með jákvæðu hugarfari og vinna vel sem teymi. Það er oft gaman að sjá þegar á reynir hvað allir leggjast á eitt og við vinnum vel saman sem ein heild. Við sýnum hvort öðru félagslegan stuðning og erum til staðar þegar á þarf að halda sem er nauðsynlegt í því krefjandi starfi sem lögreglustarfið er.

Skortur er á menntuðum lögreglumönnum hér á landi og erum við sífellt að leita af metnaðarfullu fólki til þess að starfa með okkur. Því mæli ég með, fyrir þá sem hafa áhuga á að ganga til liðs við okkur, að sækja um nám í löggæslu- og lögreglufræði.

Opið er fyrir umsóknir í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri til 31. mars. Kynntu þér málið á www.menntaseturlogreglu.is.

Sandra Sif Benediktsdóttir, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.